Af hverju Sumarliði póstur?

Frá Aðalheiði Hallgrísmdóttur

Að undanförnu hef ég orðið vör við að sumir félagar í Barðstrendingafélaginu hafa ekki hugmynd um af hverju fréttabréfið okkar heitir Sumarliði póstur. Mig langar því til að rifja það aðeins upp.

Í fyrsta fréttablaði félagsins (sem líklega hefur komið út fyrri part árs 1988, en það er ekki dagsett) var beðið um tillögur að nafni á blaðið. Í næsta blaði (dagsett 5. september 1988) er sagt frá því að nokkrar tillögur hafi borist, en það var Sigmundur Jónsson frá Kambi sem sendi ritnefnd bréf sem í stóð meðal annars:

Þið spyrjið okkur hvað fréttabréfið eigi að heita. Ég legg til að það bréf verði látið heita Sumarliði póstur. …En fréttabréfið mætti hafa nafn sem heiðrar þá kynslóð sem fyrir 100 árum tók við þessu landi vegalausu og komst samt leiðar sinnar, varð að brautryðjendum, þó hægt gengi, í strjálbýli landshlutans okkar. Kjörinn maður til að vera okkur tákn fyrir slíka einstaklinga var Sumarliði póstur Guðmundsson.

Hann fór þessa löngu og erfiðu póstleið frá Króksfjarðarnesi í A-Barðarstrandarsýslu til Bíldudals í 46 ár. Hvar sem hann fór um sýsluna var hann sjálfur auk þess lifandi fréttablað. Allir þekktu Sumarliða póst og öllum vildi hann gott gera.

Hér er svo stutt frásögn Sumarliða sjálfs sem birtist í Söguþáttum landpóstanna en í þeirri bók má fræðast meira um hann.

Það getur sjálfsagt ekki heitið, að ég hafi lent í miklum mannraunum eða svaðilförum, þótt oft hafi blásið kalt, og ekki ætíð verið bjart umhverfis. Hef ég þó aldrei legið úti á ferðum mínum og sjaldan komist í bersýnilegan lífsháska, og hefi ég í því sem öðru á lífsleið minni oft getað þreifað á Guðs vernd og aðstoð.

Fjölmarga vetur framan af póstárum mínum hafði ég sjaldan eða aldrei hest. Gekk ég þá og bar póstinn, keypti mér stundum fylgd eða varð jafnvel að hafa mann með mér til byrjunar, þegar pósturinn var 60-90 pund og þar yfir, sem oft var í mesta skammdeginu.

Þegar fremur vel lét í vetrarferðum, allgóð yfirferð og veðurlag, stóðu ferðirnar yfir í 12-16 daga, en gátu líka oft orðið 18-20 dagar og þar yfir, þegar illa viðraði og vatnsföll töfðu. Lengst hefi ég verið í póstferð 24 daga, enda þá skammdegi og sífelldar vestan stórhríðar. Er það ávallt versta veðurátt á þessum slóðum. Myndi það þykja langt nú þeim, er heima bíða, að fá engar fréttir svo lengi. Sími kom ekki á þessari leið fyrr en 1927.

Einnig má lesa um Sumarliða í bókinni Frá Bjargtöngum að Djúpi, VI. bindi, en þar er fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Karl Árnason á Kambi þar sem hann meðal annars segir frá Sumarliða Guðmundssyni fóstra sínum í Borg, póstferðum Sumarliða, ferðum þeirra saman og eftir að Karl tók við ferðunum sjálfur.

Vona að einhver sé einhvers vísari.
Aðalheiður Hallgrímsdóttir

Posted in Fréttir

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>