Lög félagsins

Lög félagsins

Þessi lög hér að neðan eru síðan í apríl 1969 og eru nánast öll í gildi ennþá.
1. grein
Félagið heitir Barðstrendingafélagið, heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Tilgangur félagsins er:
1. Að efla og viðhalda kynningu á milli Barðstrendinga nær og fjær.
2. Að varðveita frá gleymsku sögulegar minjar úr Barðastrandarsýslu og sérhvað annað viðvíkjandi menningu og lifnaðarháttum sýslubúa.
3 Að styðja eftir megni öll þau mál, sem miða að framförum og menningu sýslubúa.

3. grein
Allir velunnarar Barðstrendingafélagsins geta orðið félagsmenn.
Þeir sem óska að gerast félagar, skulu sækja skriflega um inntöku á eyðublaði sem félagið leggur til.
Nýir félagsmenn eru teknir inn í félagið á aðalfundi með samþykkt fundarmanna.

4. grein
Á aðalfundi skal kjósa stjórn félagsins.
Kjörgengi til stjórnar hefur hver sá félagsmaður sem orðinn er 18 ára.
Stjórn félagsins skipa sjö menn og fjórir til vara. Kjósa skal formann sérstaklega og skal kjörið hefjast á því.
Formaður skal kosinn ár hvert.
Á aðalfundi skal og kjósa þrjá stjórnarmenn, en þrír sitja jafnan eftir. Varamennina fjóra og skoðunarmenn reikninga (tvo og einn til vara) skal kjósa árlega. Stjórnarstörfum öðrum en formanns, skulu stjórnarmeðlimir skipta sjálfir með sér.
Kjósa skal eftir uppástungum fram komnum á aðalfundi.
Kosningar skulu vera leynilegar.
Setja má nánari reglur um kosningar í fundarsköp.

5. grein
Stjórnin annast allar framkvæmdir félagsins, sem sérstakar nefndir eru ekki kjörnar til. En ekki er henni heimilt að ráðast í framkvæmdir, sem varða fjárhag félagsins, né leggja á það skuldbindingar, nema með samþykki löglegs fundar.

6. grein
Aðalfund skal halda fyrir apríllok ár hvert.  Aukafundir skulu haldnir, þegar stjórnin telur þess þörf, eða þegar 25 félagsmenn óska þess.  Aðra fundi ákveður stjórn.

7. grein
Á aðalfundi skal leggja fram yfirfarna reikninga fyrir liðið almanaksár, og skulu þeir bornir undir samþykkt fundarins.

8. grein
Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna hverju sinni.
Nýir félagar skulu greiða árgjald fyrir það ár, sem þeir ganga í félagið.
Sýni félagi vanskil á félagsgjaldi í tvö ár, er stjórninni heimilt að strika hann út af félagaskránni.
Þá er félagsmaður nær 67 ára aldri, er honum frjálst að greiða félagsgjaldið en telst vera fullgildur félagsmaður þó hann greiði ekki.
Úrsögn skal vera skrifleg.

9. grein
Fundi skal stjórnin auglýsa með nægum fyrirvara, og á þann veg sem bezt hentar hverju sinni.

10. grein
Lögum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi, en til þess þarf samþykki 2/3 fundarmanna. Tilkynna skal í fundarboði að um lagabreytingu verði að ræða.
Lögmætur er fundur ef löglega er til hans boðað.

11. grein
Til þess að leggja félagið niður þarf samþykki tveggja lögmætra funda, sem haldnir séu með 1/2 mánaðar millibili, og sé málið auglýst í fundarboði.
Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal seinni fundurinn ráðstafa eignum þess, á einhvern hátt, til styrktar menningarmálum í Barðastrandarsýslu.

12. grein
Þeim atriðum, sem ekki eru tekin til greina í lögum þessum, ræður lögmætur fundur til lykta með einfaldri atkvæðagreiðslu.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema öðruvísi sé fyrirmælt í lögum þessum.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í apríl 2018