Hagyrðingakvöld Barðstrendinga og Breiðfirðinga á fimmtudaginn

Fimmtudagskvöldið 19. nóvember munu Breiðfirðingafélagið og Barðstrendingafélagið halda sameiginlegt hagyrðingakvöld í Breiðfirðingabúð að Faxafeni 14 klukkan 20:00

Aðgangseyrir er 1000 kr og innifalið er kaffi og meðlæti.

Við verðum með sjö flotta og skemmtilega hagyrðinga sem eru að semja um ýmis efni þessa dagana og munu leyfa okkur að heyra afraksturinn þetta kvöld.

Þeir eru:

  • Einar Óskarsson
  • Hjörtur Þórarinsson
  • Hlíf Kristjánsdóttir
  • Jóhannes Gíslason
  • Kristján Jóhann Jónsson
  • Ólína Gunnlaugsdóttir
  • Ólína Kristín Jónsdóttir

Að auki munu Guðmundur Arnfinnsson og Guðjón D. Gunnarsson senda vísur en þeir eiga ekki heimangengt.

Stjórnandi verður Jóhanna Fríða Dalkvist.

Fólk í sal fær tækifæri til að botna nokkra fyrriparta og verða verðlaun veitt fyrir besta botninn.

Fyrripartarnir eru birtir hér fyrir neðan.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Á böllunum var feikna fjör
í fögrum Bjarkarlundi.

Bolaspað og brennivín
bændur kunna að meta.

Bráðum kemur betri tíð
með blóm í laut og runni.

Mönnum er í geði glatt
á góðra vina fundi.

Hagyrðinga hérna sé,
að heyra býsna góðir/fljótir (hér má hver og einn velja sér endingu í annarri línu)

Nú er vetur, nálgast jól,
nóttin lengist óðum.

Ýmsum finnst það stórfelld stund
að stara á norðurljósin.

Bók að lesa ljúf er iðja
á löngu kvöldi.

Posted in Forsíða, Fréttir

Þetta var nú bara svona – Ævisaga Jóns Magnússonar

Það er okkur bæði ljúft og skylt að koma eftirfarandi fréttatilkynningu á framfæri fyrir Bókaútgáfuna Hóla.

Það var nú bara svona er ævisaga Jóns Magnússonar, skipstjóra og athafnamanns á Patreksfirði, skráð af Jóhanni Guðna Reynissyni. Þetta er baráttusaga manns sem var ekki hugað líf fljótlega eftir fæðingu, hætti að reykja 12 ára gamall og hefur farið sínar eigin leiðir í lífinu og berst þá ekki alltaf með straumnum. Jón er landsþekktur skipstjóri og aflamaður en fyrstu árin voru þyrnum stráð þar sem fyrir kom til dæmis að móðir pilts, sem hann vildi fá með sér á sjóinn, mætti þessum unga skipstjóra í dyragættinni með hnífinn á lofti. Þau hjónin, Jón og Lilja Jónsdóttir, hafa rekið Odda hf. og Vestra ehf. á Patreksfirði um árabil og aldrei selt eitt aukatekið kílógramm af kvóta frá útgerðum sínum. Starfseminni er fyrst og fremst ætlað að afla byggðarlaginu lífsbjargar og veita fólkinu þar eins trygga atvinnu og auðið er.

Thettavarnubarasvona

Posted in Forsíða, Fréttir

Nýtt sýningarkerfi í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði?

Það er okkur ljúft og skylt að láta vita af einu og öðru sem tengist okkar heimahögum og þykir okkur vænt um að fá að vita af hlutum sem eiga hugsanlega heima hér á síðunni okkar.

Við fengum bréf í vikunni sem okkur langar að koma á framfæri, en það er svohljóðandi:

“Elskulegu Barðstrendingar nær og fjær. 

Þessa dagana stendur yfir söfnun fyrir nýju sýningarkerfi í Skjaldborgarbíó, nú er svo komið að allar nýjar kvikmyndir sem berast til landsins eru á stafrænu formi en í Skjaldborg er bara gömul filmuvél og því ekki hægt að sýna nýjar kvikmyndir.

Heildarkostnaður verkefnisins er u.þ.b. tíu milljónir og þegar hafa safnast átta milljónir. Til að ná síðustu tveimur milljónum sem vantar upp á hefur verið blásið til söfnunar á www.karolinafund.com og þar er hægt að styrkja verkefnið um allt frá 2.860 krónum.

Til að minna á söfnunina verða ýmsir viðburðir í boði á söfnunartímanum, sem stendur yfir til 5. desember, og við viljum sjá sem flesta í Skjaldborg og í Bíó Paradís.
Fylgist með á facebook síðunni okkar: Nýtt sýningarkerfi í Skjaldborgarbíó, lækið, deilið og síðast en ekki síst…..styrkið. Það munar um allt.”

Posted in Forsíða, Fréttir

Fjáröflunardagur Kvennadeildar 31. október

Hinn árlegi fjáröflunardagur Kvennadeildar Barðstrendingafélagsins verður haldinn í:

Breiðfirðingarbúð Faxafeni 14, 
laugardaginn 31. október 2015
kl. 14:00.

Margt góðra muna í boði sem og happdrætti og kaffihlaðborð að venju.

Basar_2015Verð er aðeins
1.500 kr fyrir fullorðna,
500 kr. fyrir börn 6-12 ára,
en frítt er fyrir yngri en 6 ára.

 

 

Munið lyftuna!!!

Hlökkum til að sjá ykkur.

Kvennadeildin

 

Posted in Forsíða, Fréttir

Opið hús síðasta sumardag – föstudaginn 23. okt

Það verður opið hús í Konnakoti síðasta dag sumars, föstudaginn 23. október.

Við erum að Hverfisgötu 105, 2. hæð, lyfta á staðnum. Bílastæði fyrir neðan hús og hægt að ganga þar inn líka.

Húsið opnar klukkan 19:30
Aðgangseyrir er 1.000 krónur.

Frá klukkan 20 til 22 mun starfsfólk Spilavina vera á staðnum og kynna og leyfa okkur að prófa ýmis borðspil.

Það er engin skylda að spila, það má líka mæta, fylgjast með og spjalla. Við getum setið áfram þó að Spilavinir fari. Þau leysa fólk út með afsláttarmiðum en það getur komið sér vel fyrir jólin!

Velkomið að mæta með öl eða aðra drykki með sér en það verður eins og alltaf heitt á könnunni.

Það mega allir áhugasamir mæta, það er ekki skylda að vera félagsmaður.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Konnakot

Posted in Fréttir, Uncategorized

Sumarferðin næstkomandi laugardag, 29. ágúst.

Laugardaginn 29. ágúst höldum við á Drangsnes um Arnkötludal og svo heim suður Strandir.
Helstu stoppistöðvar okkar á leiðinni eru Arnarsetrið í Króksfjarðarnesi, Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði og Sauðfjársetrið á Sævangi.
Eins og hefð er fyrir, reiknum við með að fólk hafi með sér nesti og við munum hafa nestisstopp um leið og við skoðum kotbýlið. Önnur nestisstopp verða eftir hentugleikum.

Við reiknum með að koma í bæinn aftur á milli klukkan 20 og 21.

Þátttaka tilkynnist fyrir kl. 21 miðvikudaginn 26. ágúst til:
– Ólína Kristín Jónsdóttir, s. 691 1912, olinak@vortex.is eða
– Jóhann Magnús Hafliðason, s. 897 3346, s. 554 0536

Lagt verður af stað frá BSÍ stundvíslega kl. 8:00
Verð kr. 7000. – Munum nestið!

Það spáir björtu og góðu veðri á laugardaginn! Allir velkomnir!

Posted in Fréttir

Heiðmerkurkvöld

Farin verður vinnuferð í reit félagsins, Barðalund, í Heiðmörk fimmtudagskvöldið 25. júní kl. 20:30.

Við hittumst og hjálpumst að við að snyrta aðeins til. Við berum á, grisjum og gróðursetjum undir leiðsögn Helgu og Hjörvars.
Þeir sem treysta sér ekki í það mega gjarnan koma og vera skemmtilegir :) Tilvalið að leyfa börnunum að koma með.

Hvetjum alla til að koma með nesti sem við leggjum á hlaðborð og gæðum okkur á í lokin og eigum skemmtilega stund!

Nú eru komin tvö falleg skilti við lundinn okkar og því ættu allir að geta fundið hann, þar er líka hið ágætasta bílaplan. (hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri).

20150520_211559

Það er hægt að keyra í gegnum Heiðmörk, hvort heldur sem er frá Hafnarfirði/Garðabæ eða af Suðurlandsvegi. Af aðalveginum er styttra að fara frá Suðurlandsvegi, það eru um 4,5 km (bláa leiðin á mynd), en það er alltaf fallegt að keyra gegnum Heiðmörk, svo leiðin frá Hafnarfirði er alls ekki síðri, en hún er um 9,5 km (rauða leiðin á mynd). Hér fyrir neðan sést blár hringur með hvítu tré og stendur Heiðmörk með bláum stöfum, þar er Barðalundur.

Screenshot_2015-05-20-21-54-52

Þökk sé skiltunum þá sést Barðalundur með ágætum fyrirvara ef komið er frá Hafnarfirði.

20150520_211446

Hann sést með styttri fyrirvara úr hinni áttinni, þ.e. þegar ekið er af Suðurlandsvegi…

20150520_212055

…en fyrir þau sem koma þaðan er lykilatriði að taka beygju til hægri þegar komið er að þessum stað hér fyrir neðan, þ.e. þið farið ekki upp þessa brekku, heldur beygið og keyrið ca 1 kílómeter.

20150520_214353

Í Barðalundi er þetta fína borð með bekkjum þar sem hægt er að hvíla lúin bein, borða nestið og spjalla við skemmtilegt fólk :)

20150520_211925

Sjáumst í Barðalundi!

 

Posted in Fréttir

Barðalundur

Vefstýran tók rúnt í Barðalund í kvöld til að taka myndir og merkja staðinn nákvæmlega inn á kort, það kemur hér inn síðar.
Það var fallegt veður, logn, aðeins skýjað og farið að rökkva, umhverfið dásamlega fallegt.

Við erum með tvö falleg skilti við lundinn góða, sem gerir hann vel sýnilegan þegar komið er frá Hafnarfirði, þá er hann á hægri hönd, tæplega 9,5 km eftir að beygt er inn á Heiðmerkurveg.

Þegar komið er frá Suðurlandsvegi, þá er hann rúma 4 km eftir að beygt er af Suðurlandsvegi, þá sést hann með styttri fyrirvara. Ágætis bílaplan er við hann.

Þið getið smellt á myndina til að sjá hana stærri (og smellt svo aftur og þá kemur hún enn stærri).

Skiltin við Barðalund

Barðalundur


Posted in Fréttir

Allt að gerast…

…og núna er líka komin gestabók.
Bæði hægt að komast í hana hér til hliðar og á stikunni hér fyrir ofan, endilega skrifið.

Posted in Fréttir

Heimasíðan er líka fyrir snjallsíma

Þessi heimasíða er gerð þannig að auðvelt er að skoða hana einnig í snjallsímum og spjaldtölvum, þ.e. stærðin aðlagar sig eftir því hve skjárinn er stór.
Þá gerist það, til að textinn hafi hámarkspláss, að dagatalið færist neðst.

Posted in Fréttir